Menu Close

Sagan

Saga leirlistar á Íslandi er stutt en hún hófst þegar Guðmundur Einarsson frá Miðdal (1895–1963) setti fyrstu leirmunagerðina á fót hér á landi um 1930.

Guðmundur er þekktastur sem myndhöggvari og listmálari en var mjög fjölhæfur listamaður. Í tæpa tvo áratugi var hann eini listamaðurinn sem fékkst við leirlist á Íslandi. Hann lærði myndskurð hér á landi áður en hann hélt til Kaupmannahafnar og síðar Þýskalands þar sem hann stundaði fjölþætt listnám, aðallega höggmyndalist. Að námi loknu stofnaði Guðmundur leirverkstæði á Skólavörðuholtinu í Reykjavík sem nefndist Listvinahúsið, þar sem hann bjó og hélt sýningar. Hann setti upp kolaofn til leirbrennslunnar og rannsakaði íslenskan leir sem hráefni til leirmunagerðar. Lengi vel var leirmunagerð Guðmundar sú eina hér á landi og framleiðslan náði miklum vinsældum. Fyrstu munirnir voru unnir undir áhrifum frá Þýskalandi, renndir vasar voru skreyttir með útskurðarmunstri og málun gripanna einkenndi þá. Fljótlega fór Guðmundur að móta smástyttur af íslenskum sjómönnum, þjóðsagnaverum og dýrum en fuglamyndir hans, rjúpan, hrafninn og fálkinn urðu afar vinsælar og til á mörgum heimilum. Í Listvinahúsinu voru einnig unnir nytjahlutir eins og könnur, vasar og skálar af ýmsum stærðum og gerðum

Ragnar Kjartansson (1923–1989) hóf nám í leirkerasmíði hjá Guðmundi frá Miðdal haustið 1939 aðeins fimmtán ára gamall. Að námi loknu árið 1944 starfaði hann áfram í Listvinahúsinu en fór síðan til Svíþjóðar þar sem hann kynntist nýjungum á sviði leirlistar sem hann bar með sér til Íslands. Við heimkomuna gerðist hann meðeigandi í nýrri leirmunagerð sem kallaðist Funi. Næstu tvo áratugi var leirmunagerð helsti starfsvettvangur Ragnars og þar hafði hann mikil áhrif. Unnið var úr íslenskum leir, bæði skrautmuni og nytjahluti sem urðu mjög vinsælir. Hlutirnir voru nútímalegir og einkenndust af léttu og fáguðu yfirbragði.

Árið 1957 stofnaði Ragnar fyrirtækið Glit hf ásamt fleirum. Margir listamenn unnu um lengri eða skemmri tíma í Glit. Einn þeirra var Dieter Roth (1930–1998) sem var af þýskum og svissneskum ættum og bjó á Íslandi um árabil. Hann var þekktur listamaður sem hafði mikil áhrif á íslenskt listalíf. Hann gerði m.a. kaffistell á meðan hann vann hjá Glit.

Í Glit var mest notaður mattur glerungur og skreytingin sem oft var abstrakt lá ekki aðeins á yfirborðinu heldur gekk einnig ofan í hann. Lögð var áhersla á að nota íslenskan leir og íslensk jarðefni eins og hraun. Ragnar fór að blanda blágrýtishrauni í leirinn þannig að hann varð grófkornóttur og þannig munir nutu mikilla vinsælda. Ragnar gerði marga veggskildi og vann stórar veggmyndir á byggingar í Reykjavík þar sem hann sameinaði kosti leirvinnslunnar og listrænan metnað höggmyndalistarinnar sem hann helgaði sig síðar alfarið. Hann var lengi í forsvari fyrir keramikdeild Myndlista-og handíðaskólans.

Glit var um margt langt á undan sinni samtíð og markar djúp spor í íslenskri leirlistarsögu, á tíma þegar íslenskur listiðnaður var í frumbernsku.
Saga fyrirtækisins er kaflaskipt en Leirbrennslan Glit hf. var formlega stofnuð 10. júní 1958 af þeim Einari Elíassyni verslunarmanni, Pétri Sæmundsen, þáverandi formanni Félags íslenskra iðnrekenda og síðar bankastjóra Iðnaðarbankans, og Ragnari Kjartanssyni, myndhöggvara og leirlistamanni.

Stofnfundurinn átti sér stað á kontór lögfræðingsins Páls S. Pálssonar í  Bankastræti 7. Leirbrennslan var starfrækt á Óðinsgötu 13b allt til 1971 þegar ákveðið var að stækka fyrirtækið og flytja upp á Höfða. 

Gjarnan er vísað í starfstímann á Óðinsgötu sem „Gamla Glits“ og tímans uppi á Höfða sem „Stóra Glits“.

Listrænn metnaður stjórnenda Glit var mikill þegar fyrirtækið var stofnað og hugmyndir um að færa út kvíarnar, að hefja útflutning, gerðu það að verkum að hvergi var slegið af kröfum um að standast fyllilega allan samanburð. Margir af okkar þekktustu listamönnum á 20. öld unnu hjá Glit til lengri eða skemmri tíma og minnast þess tíma sem mikilvægrar „listrænnar fósturmiðstöðvar“ þegar Ragnar sá um framleiðsluverkstæði Glit við Óðinsgötu.

Breytingar á áherslum og vilji til að auka framleiðslugetu og tæknivæða hana leiddi til þess að Glit breytti um gír og iðnvæddist og tók framleiðslan nýja stefnu úr lista- og hönnunarsögu Íslands inn í sjálfa iðnaðarsögu Íslands.